Álver - stóriðja hugvits

Í HUGUM margra er álver einsleitur og einhæfur vinnustaður. Það er öðru nær. Í einu álveri er heilt samfélag margvíslegrar starfsemi og þar kennir margra grasa. Þar er flóra iðngreina og tæknigreina í sinni fjölbreyttustu mynd. Það eru fáir sem vita að álver er frjór jarðvegur fyrir hugvit verkfræðinga, tölvunarfræðinga og tæknimenntaðs fólks með menntun og þekkingu af ýmsum toga. Frjór jarðvegur atvinnulífs er m.a. undirstaða þess að menntun fólks komi að einhverju gagni og þar er álver vettvangur sköpunar hugvitsmanna. Fjöldi verkfræðinga og tölvunarfræðinga hafa fengið sína í eldskírn í Straumsvík, í umhverfi sem bæði er fjölbreytt og krefjandi og á sér raunar enga aðra samsvörun í íslensku atvinnulífi. Í tíð Ragnars Halldórssonar, Kristjáns Roths og Rannveigar Rist hefur íslenskt hugvit fengið að blómstra og dafna. Hugvitsemi starfsmanna og ýmsar lausnir sem starfsmenn álversins í Straumsvík hafa komið með á ýmsum vandamálum hafa vakið athygli víða um heim. Út frá þeim sprotum sem orðið hafa til í Straumsvík hafa líka sprottið önnur og ný fyrirtæki sem fest hafa rætur og skapað þannig fjölda nýrra atvinnutækifæra. Álverið í Straumsvík er t.d. frumkvöðull í uppbyggingu útvistunarþjónustu tölvukerfa á Íslandi en með tilurð Álits sem nú heitir ANZA undirritaði ISAL fyrsta samning sinnar tegundar á Íslandi. Í dag starfa mörg hundruð starfsmenn í sambærilegum fyrirtækjum á Íslandi og mörg fyrirtæki hafa farið að dæmi ISAL og útvistað sinni tölvuþjónustu. Taka mætti önnur sambærileg dæmi en meginatriðið er að álver er stóriðja hugvits af fjölbreyttum toga. Það er m.a. í þannig umhverfi sem íslensk menntun og íslensk menning nær að bera ríkulegan ávöxt.

Höfundur er einn af stofnendum Álits og fyrrverandi framkvæmdastjóri ANZA.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband